Í upphafi meðferðar
Sigríður Karen Bárudóttir, Cand.psych
Sérfræðingur í klínískri sálfræði og réttarsálfræði, EMDR þerapisti
Til upplýsingar við upphaf meðferðar hjá Sálfræðisetrinu
Trúnaður og lög um réttindi sjúklinga
Samkvæmt landslögum og siðareglum sálfræðinga þá eru sálfræðingar bundnir trúnaði við skjólstæðinga sína. Það þýðir meðal annars að sálfræðingur hefur þagnarskyldu gagnvart þér og má ekki veita öðrum aðilum upplýsingar um þig nema með skriflegu leyfi þínu.
Undantekningar frá þessu ákvæði um trúnað og þagnarskyldu eru:
-
Þegar velferð barns, fatlaðra eða aldraðra er í húfi, þá ber að tilkynna það til viðeigandi yfirvalda (t.d. Barnaverndarnefnda) sem geta þá kallað eftir frekari upplýsingum frá mér og er mér þá skylt að afhenda þær.
-
Þegar rökstuddur grunur leikur á að þú eða annar aðili sé líklegur til að valda sjálfum sér eða öðrum skaða, þá ber sálfræðingi að hafa samband við einhvern nákominn, viðeigandi stofnun eða yfirvöld. Þetta er gert til að tryggja öryggi eins vel og hægt er.
-
Þegar þú kemur til meðferðar á vegum Virk, félagsþjónustu eða barnaverndar þá samþykkir þú að sálfræðingur veiti þeim upplýsingar um afmarkaða þætti meðferðarinnar. Þú getur fengið aðgang að þessum gögnum farir þú fram á það.
-
Í sumum tilfellum getur dómari úrskurðað að afhenda þurfi gögn ef um sakamál er að ræða.
Þér er frjálst að ræða við aðra um það sem fram fer í viðtölum þínum en eins og kemur fram hér að ofan hefur starfsfólk Sálfræðisetursins ekki leyfi til þess. Ef þú rekst á þinn sálfræðing fyrir tilviljun utan viðtala, þá kemur hann ekki til með að heilsa að fyrra bragði. Þetta er til að halda trúnað við þig. Við biðjum þig um þá tillitssemi að ræða ekki við aðra um hverja þú kannt að rekast á, á biðstofu EMDR stofunnar eða Sálfræðisetursins.
Meðferð persónuupplýsinga
Starfsfólk Sálfræðisetursins leggur áherslu á trúnað og öryggi við meðferð persónuupplýsinga skjólstæðinga. Lög um trúnaðarskyldu heilbrigðisstarfsfólks gilda um meðferð upplýsinga sem og GDPR persónuverndarlögin og þar að auki lög um meðferð sjúkraskráa. Sálfræðingur skrifar hjá sér upplýsingar í hverju viðtali og eru þær vistaðar sem hluti af rafrænni sjúkraskrá. Einnig eru upplýsingar vistaðar í möppu á hörðu drifi í tölvu sálfræðings á skrifstofunni þegar það á við, eins og þegar niðurstöður matslista eru skráðar.
Tölvupóstur
Ef þú hefur samband við sálfræðing eða ritara í gegnum tölvupóst þá er vakin athygli á því að það er ekki fyllilega öruggt samskiptaform. Tölvupóstar vistast í póstforritum og netþjónustufyrirtækjunum sem við skiptum við. Sálfræðisetrið skiptir við Símann. Sama á við ef þú sendir skilaboð í gegnum Facebook til Sálfræðisetursins að sá samskiptamáti tryggir ekki leynd eða trúnað. Hafðu þetta í huga þegar þú sendir skilaboð til starfsfólks.
Viðtalsbókanir
Viðtalsbókanir fara fram í rafrænu sjúkraskrárkerfi. Starfsfólk Sálfræðisetursins; sálfræðingur og ritarar hjá ritaraþjónustunni Ritari.is hafa aðgang að bókunarkerfinu og þar með upplýsingar um komur þínar á stofuna.
Áminningar
Þú færð áminningu með smáskilaboðum (SMS) daginn fyrir viðtalið þitt. Ekki er hægt að svara SMS-inu til að breyta eða afboða tíma. Þá þarf að hafa samband við ritara í síma 537-3033 eða með því að senda mér tölvupóst timabokun@salfraedisetrid.is
Greiðsla
Greiðsla er innt af hendi eftir hvert viðtal. Flest stéttarfélög taka þátt í kostnaðinum og ef þú kýst getur þú framvísað kvittuninni hjá þínu stéttarfélagi og sótt um endurgreiðslu að hluta. Kvittun fyrir greiðslu á viðtalinu er send þér með tölvupósti í gegnum bókhaldsforritið dk.
Athugaðu að Sálfræðisetrið er ekki með lánastarfsemi og að gert er ráð fyrir staðgreiðslu fyrir hvert viðtal. Tekið er við seðlum og greiðslukortum á staðnum.
Price Waterhouse Coopers sér um bókhald og endurskoðun reikninga fyrir Sálfræðisetrið og getur bókari fyrirtækisins því haft aðgang að greiðslum þínum fyrir komur vegna lögbundinna skráninga rekstrarupplýsinga fyrirtækisins.
Ilmefni
Við biðjum þig um að vera ekki með ilmefni á þér (t.d. ilmvatn, rakspíra) þegar þú kemur í viðtal. Til okkar leita ýmsir aðilar sem eru mjög viðkvæmir fyrir slíkri lykt og við biðjum þig að taka tillit til þess.
Forföll
Ef þú forfallast ertu vinsamlega beðin(n) um að láta vita af því með minnst 24 tíma fyrirvara til ritara í síma 537-3033 (Sálfræðisetrið) eða með því að senda mér SMS (894-3323) eða með tölvupósti til mín timabokun@salfraedisetrid.is. Ef þú lætur ekki vita, eða lætur vita með minna en 24 tíma fyrirvara, þá ertu samt sem áður ábyrg(ur) fyrir greiðslu á viðtalinu. Ef þú hefur fengið samþykki Félagsþjónustunnar eða Starfsendurhæfingarsjóðs (Virk) fyrir greiðslu á viðtölum, þá greiða þessar stofnanir ekki fyrir viðtöl sem ekki er mætt í og þar af leiðandi ert þú ábyrg(ur) fyrir greiðslu á viðtali sem þú afboðar ekki með tilsettum fyrirvara.
Undanþága er veitt frá þessu þegar um skyndileg veikindi þín eða barns er að ræða og þegar veðurviðvaranir eru gefnar út af veðurstofu.
Upplýsingar um réttindi sjúklinga eru á þessari vefslóð:
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997074.html
Ábyrgð skjólstæðings
Þú ert ábyrg(ur) fyrir því að muna að mæta í viðtalstímann þinn. Ekki treysta einvörðungu á áminningar með SMS eða tölvupósti þó að í mörgum tilvikum séu þær notaðar. Tæknin getur átt það til að bregðast okkur og það getur verið dýrt fyrir þig að hafa tímana ekki skráða með öðrum hætti.
Neyðartilvik
Ef þú eða einhver nákominn þér álítur líðan þína vera mjög alvarlega ber þér/ ykkur að hafa samband við Göngudeild geðdeildar Landspítalans á Hringbraut, við slysadeildina í Fossvogi eða hringja í neyðarnúmerið 112 til að óska eftir aðstoð.